Leitarhundar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar
Menu
Mögulegir æfingastaðir eru Skíðasvæðið eða Kálfadalur.
Dagskrá námskeiðs verður kynnt í tölvupósti þegar nær dregur. Ef það eru einhverjar spurningar þá hafa samband við Jón H í netfang medstjornandi@leitarhundar.is eða hringjaj í síma 898-7628 Framhalds aðalfundarboð laugardaginn 28. júní 2014 Framhalds aðalfundur Leitarhunda 2014 frá laugardeginum 15. mars 2014 Framhalds aðalfundur Leitarhunda Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verður haldin laugardaginn 28 júní n.k.. Fundurinn hefst kl. 20:30 Efni fundarins verða hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt 5.grein laga Leitarhunda. (sjá hér neðar) Fundurinn er haldin meðfram sumar úttekt Leitarhunda og verður því haldin í Björgunarhúsi Skagfirðingasveitar 5. grein. Aðalfundur. • Aðalfundur fer með æðsta vald Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Skal hann haldinn í marsmánuði ár hvert og boðaður með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. • Ársskýrsla skal liggja fyrir á aðalfundi til skoðunar. Atkvæðisrétt hafa aðeins fullgildir félagar. Fyrir fundinum skal liggja kosning landshlutana á hópstjórum og varahópstjórum. Formaður Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar er kosinn á aðalfundi. • Tillögur til lagabreytinga skal skilað til stjórnar a.m.k. 15 dögum fyrir aðalfund. • Á aðalfundi er kosið í fræðslunefnd sem starfar eitt ár í senn. • Fræðslunefnd skal skipuð 3 mönnum, þar af 2 kosnir á aðalfundi og sá þriðji skipaður af stjórn, þar af skal minnst einn vera leiðbeinandi. • Fræðslunefnd vinnur að tillögum varðandi úttektarreglur, námskeiðshald og fræðsuefni til félagsmanna. • Fræðslunefnd skilar tillögum til stjórnar til frekari afgreiðslu. • Aðalfundur samþykkir breytingar á reglum um úttektir. • Aðalfundur lýtur almennum fundarsköpum. • Tveir skoðunarmenn reikninga skulu kosnir á aðalfundi. • Breytingar á reglum þessum verða einungis gerðar á aðalfundi. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi: 1. Skýrsla stjórnar 2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til skoðunar. 3. Lagabreytingar. 4. Kosning formanns. 5. Kosning endurskoðenda. 6. Kosning fræðslunefndar. 7. Önnur mál.
0 Comments
Fyrirlestrarferð til Bangor – Norður Wales.
Steinar Gunnarsson Fyrir um tveimur árum síðan nefndi Harold Burrows, félagi okkar, það við okkur að senda fyrirlesara á björgunarráðstefnu í Norður Wales. Það var vel tekið í það og sáu menn enga annmarka á því að fara til Wales með fyrirlestur. Síðan var ekkert meira spáð í þessu fyrr en Harold ítrekaði ósk sína löngu síðar. Annað hvert ár halda öll björgunarsamtök á Stóra-Bretlandi veglega ráðstefnu einhversstaðar á Bretlandseyjum, ekkert ósvipaða “Björgun” hér heima bara talsvert stærri. Í þetta sinn átti ráðstefnan að fara fram í Norður Wales. Valgeir, formaður Leitarhunda SL, hafði samband við mig og spurði hvort ég gæti tekið að mér þetta verkefni, þ.e. að semja og halda fyrirlesturinn. Ég gaf mér nokkra daga til að svara og ákvað síðan, eftir að hafa lagt þetta fyrir fjölskylduna, að slá til. Harold hafði óskað eftir fyrirlestri um þróun á aðferðarfræði okkar við þjálfun snjóflóðahunda. Nú var bara að setjast niður og semja fyrirlestur, það ætti varla að vera stórt mál. Það var síðan miklu meira verk en mér hafði órað fyrir. Fyrirlesturinn átti að vera 45 – 50 mínútur. En það var ekki eftir neinu að bíða; tíminn var knappur svo nú varð að láta hendur standa fram úr ermum. Ég lagði nótt og dag í að setja saman fyrirlestur, færa hann yfir á ensku og setja hann upp í Power Point. Síðan fékk ég góða aðstoð hjá vini mínum, Steinþóri Þórðarsyni, við að setja upp sjálft Power Point showið og færa þetta allt saman í stílinn. Eftir mikla vinnu var loksins klár fyrirlestur sem ég var bara virkilega ánægður með. Valgeir hafði verið önnum kafinn í námi og því lítið getað fylgst með vinnunni í kringum fyrirlesturinn og vissi þar af leiðandi ekkert hvað ég var búinn að setja saman. Valli er hins vegar í eðli sínu samviskusamur og vill gera hlutina vel. Hann hafði því áhyggjur og hafði reglulega samband til að ýta við mér og sjá hvernig gengi. Ég gaf yfirleitt lítið upp við hann og ég fann að hann var farinn að hafa verulegar áhyggjur þegar nær dró ferðinni. Því ákvað ég að gera honum saklausan grikk sem ég kem síðar inn á. Það stóð til að Hörður Magnússon, fyrrverandi skólastjóri Björgunarskólans, héldi fyrirlestur um unglingastarf íslenskra björgunarsveita á ráðstefnunni. Hörður boðaði forföll með skömmum fyrirvara og var þá ákveðið á síðustu metrunum að Ágúst Magnússon, leiðbeinandi hjá Leitarhundum hlypi í skarðið. Gústi er vel að sér varðandi unglingastarf björgunarsveitanna þar sem hann var á sínum tíma einn af upphafsmönnum unglingastarfs hjá Slysavarnarfélagi Íslands. Gústi var klár í slaginn og því var ekki eftir neinu að bíða. Nú var komið að ferðalaginu til Wales. Ákveðið hafði verið að við færum þrír saman, ég,Valgeir og að sjálfsögðu Gústi. Gústi hafði séð um alla ferðatilhögun og gengið frá miðunum o.s.fr. Ferðin var greidd af björgunarsamtökunum sem héldu ráðstefnuna. Við lögðum af stað áttunda september frá Keflavík, eldsnemma um morguninn. Ég hafði verið að vinna ansi mikið dagana þarna á undan og var því sára lítið sofinn þegar við lögðum í hann. Ég ætlaði þess vegna að nota tækifærið og sofa vel á ferðalaginu og sá fyrir mér notalega flugferð og svo lestarferð í framhaldi þar sem ég gæti sofið og náð langþráðri hvíld. Það er skemmst frá því að segja að ekki var sofið mikið í flugvélinni. Við sátum saman við Gústi og við hliðina á honum sat ung kona. Þessi kona bar með sér að vera af miðausturlenskum uppruna. Gústi hefur eins og allir vita sem þekkja hann ákveðnar skoðanir í flestu og er ekkert feiminn við að viðra þær. Því var ekkert öðru vísi farið þarna. Gústi þurfti nauðsynlega að nota þetta einstaka tækifæri til að viðra skoðanir sínar um íslam, araba og sitthvað fleira við konuna. Þetta byrjaði allt með skemmtilegu spalli sem síðan þróaðist eins og við var að búast. Þá ákvað ég að loka augunum og gera allt til þess að reyna að sofna þar sem umræðan, sem að mestu snérist um arabaheiminn, var komin á það stig að ég var engan veginn upplagður í að fylgjast með henni lengur. Eftir u.þ.b. þriggja klukkustunda flug lentum við heilir á höldnu í London. Þá var strax farið i að finna réttu lestina. Það gekk bærilega og eftir að hafa skipt nokkrum sinnum um lest vorum við loksins á leið til Bangor í Norður Wales. Framundan var 4ra tíma ferð. Allar vonir mínar um að geta hvílst á ferðalaginu voru brostnar. Lestarvagninum sem við vorum í hafði verið lagt fyrir mörgum árum en síðan tekinn aftur í notkun til bráðabyrgða þar sem verið var að yfirfara nýrri lestarvagnana. Þetta var varla mönnum bjóðandi, vagninn hefði ekki fengið leyfi til fjárflutninga hér heima amk. Það var um 20 stiga hiti úti og eitthvað talsvert meiri inni og engin loftræsting í vagninum. Við Valgeir sátum saman en á móti okkur sátu Gústi og miðaldra náungi af miðausturlenskum uppruna, að sjálfsögðu. Það fór ekki á milli mála í hvað stefndi. Við Valli urðum fljótlega rænulausir vegna hita og loftleysis. Gústi hins vegar er með innbyggt kerfi eins og eyðimerkurdýr og hafði hitinn og loftleysið engin áhrif á hann. Hann náði því að halda sessunauti sínum á snakki í tvo klukkutíma eða þangað til hann fór úr lestinni. Þar kom Gústi skoðunum sínum um íslam og arabaheiminn á framfæri og virtist engu að síður fara nokkuð vel á með þeim sessunautunum. Eftir að sá austurlenski yfirgaf lestina kom bara annar í staðinn og var Gústi ekki í vandræðum með að halda honum við efnið. Ekki veit ég hvað sá náungi starfaði en ég þykist muna að þeir félgar ræddu m.a. um kjarnorkuver, kindur og að sjálfsögðu íslam. Þegar við loksins komum til Bangor voru batteríin hjá mér nánast búin. Á brautarstöðinni beið John Bell, góðvinur okkar, eftir okkur. Ég bara gat ekki beðið eftir því að komast á “hótelið” til að leggja mig. John hélt síðan með okkur á gististaðinn sem við áttum að vera á fyrstu nóttina. John sagði að við værum ekki bókaðir á ráðstefnu hótelið fyrr en næsta dag en fyrstu nóttina myndum við gista á Gistiheimili Jesse James. Jæja hvað um það, þegar við rendum upp að gistiheimilinu hélt ég að verið væri að hrekkja mig eitthvað, því þeir Valli og Gústi glottu hroðalega. Gistiheimili Jesse James var eins og gamalt fjárhús eða kökuhúsið í Hans og Grétu; niðurnýddur gamall kofi sem engan veginn leit út fyrir að vera mannabústaður. Okkur var vísað til herbergis. Við vorum fjórir saman í litlu herbergi með tveimur kojum. Í kojunum voru svefnpokar frá 1960 og ofan á þeim eitthvað sem líktist líkklæðum en þau áttum við að nota til að skríða í áður en við færum ofan í svefnpokana. Við höfðagaflinn á minni koju var svo sturtuklefi fyrir okkur félagana. Ég var orðinn allt of þreyttur til að hreyfa við mótmælum, ég varð bara að komast í svefn og ákvað að láta mig bara hafa þetta. Ákveðið var að borða áður en við færum að sofa og var stefnan sett á virðulegan veitingastað í bænum. Eftir snögga sturtu rölti ég mér út í bakgarð gistiheimilisins þar sem ég heyrði kunnuglega rödd í hróka samræðum við einhverja fleiri. Þegar ég síðan nálgaðist raddirnar sá ég hvar Gústi var að ræða við tvær finnskar konur og eiganda gistiheimilisins, sjálfan Jesse James. Jesse og þær finnsku voru orðin frekar æst og pirruð en Gústi lét sig hvergi. Ég spurði hvað gengi eiginlega á og fékk ég þau svör að þau létu ekkert segja sér svona vitleysu. Ég spurði hvað hvað málið væri og fékk þau svör að þessi maður (þau bentu á Gústa sem stóð glottandi upp við hlaðinn steinvegg) héldi því fram að Ísland væri stærsti útflytjandi banana í Evrópu. Ég leit á Gústa og klóraði mér síðan í hausnum og ákvað að svara þessu ekki né setja mig ekki frekar inn í þessar umræður. Síðan fórum við út að borða ásamt John og finnsku konunum sem reyndust vera leitarhundaþjálfarar frá Finnlandi. Gústi sagði mér síðar að þau hefðu bara ekki skilið brandarann. Finnsku konurnar, Minna og Mary urðu síðar góðir vinir okkar og áttum við skemmtilegar stundir með þeim sem og öðrum ráðstefnugestum. Þegar ég svo loksins skreið í kojuna þetta fyrsta kvöld í Norður Wales, hundþreyttur, var það fyrsta sem ég sá þegar ég var lagstur risastór kóngulóavefur í horni kojunnar. Ég hafði hreinlega ekki orku í að gera veður út af því og sofnaði því strax eins og lítið barn – Jesse James skildi ekki buga mig. Bangor er háskólabær í Norður Wales. Bærinn sem er aldagamall er á stærð við Akureyri og er gríðarlega fallegt þarna. Manni fannst eins og maður væri kominn hundrað ár aftur í tímann. Þarna eru falleg grasi vaxin fjöll sem árlega laða til sín mikinn fjölda ferðamanna, útivistarfólks og náttúruunnenda. Fólkið er vinalegt og þarna mátti sjá marga kynlega kvista. Snemma næsta morgun fórum við á ráðstefnusvæðið en bækistöð ráðstefnunnar var í háskólanum í Bangor. Það voru ráðstefnusalir á þremur stöðum í bænum. Fyrirlesarar komu víða að, eins og frá Bandríkjunum, Nýja Sjálandi, Finnlandi, Bretlandi og svo við Íslendingarnir. Fjöldi fólks var væntanlegur á ráðstefnuna hvaðanæva að úr heiminum. Okkur var nú úthlutað herbergjum í heimavist háskólans. Það var mikill munur frá gistiheimili Jesse James. Eftir að hafa komið okkur fyrir fórum við á stúfana, gerðum klárt fyrir fyrirlestrana og spjölluðum við fólk sem mætt var á ráðstefnuna. Ráðstefnan átti að standa yfir í þrjá daga og var minn fyrirlestur strax eftir setningu ráðstefnunar. Ég var með allt klárt í fartölvunni. Þegar við biðum á Keflavíkurflugvelli eftir að komast um borð í flugvélina og Valli var búinn að rella í mér í marga daga að fá að sjá fyrirlesturinn ákvað ég að láta eftir honum. Ég var sem sagt búinn að setja saman aukaútgáfu til að sýna Valla. Ég tók upp fartölvuna og opnaði fyrirlesturinn og sagði Valla að líta yfir hann. Það gerði hann síðan. Ég sat rólegur og fylgdist með andlitinu á honum meðan hann las yfir fyrirlesturinn. Smá saman byrjaði andlitið á honum að skipta litum, augun stóðu útúr hausnum á honum og hann byrjaði að reyna að segja eitthvað en stamaði bara. Málið var að ég hafði látið útgáfuna fyrir Valla byrja nokkuð vel en smá saman fór fyrirlesturinn að snúast upp í einhverja þvælu og vitleysu. Það tók því Valla eilitla stund að átta sig á að þetta væri grín en ég mun aldrei gleyma svipnum á honum þar sem heimurinn gjörsamlega hrundi eitt augnablik. Eftir setningu ráðstefnunnar var ég klár með mitt í ráðstefnusalnum sem mér hafði verið úthlutað. Ég átti ekki von á miklum fjölda á fyrirlesturinn, aðallega þá hundaþjálfurum og einstaka sérvitringum. Það kom okkur því skemmtilega á óvart þegar ráðstefnusalurinn fylltist af fólki sem komið var til að hlýða á og urðu meira að segja einhverjir frá að hverfa. Fyrirlesturinn gekk bara ljómandi vel og var mikil umræða í kjölfar hans þar sem við félagarnir svöruðum spurningum gesta. Okkur hafði augljóslega verið borin góð sagan í Bretlandi því margir höfðu heyrt vel af því látið sem við erum búin að vera að gera í gegnum árin og var mikill áhugi fyrir okkar hugmyndum og aðferðum í þjálfunarmálum. Þess má geta að komið var að máli við okkur að halda fyrirlestur bæði í Bandaríkjunum og eins Finnlandi og er það í farvatninu á nýju ári. Gústi var með sinn fyrirlestur síðasta dag ráðstefnunnar og var vel mætt á hann. Gústi sagði frá stofnun unglingadeildanna og eins frá starfsemi þeirra. Gústi hafði fengið með sér fyrirlestur á Power Point en þegar hann fór að skoða málið betur kom í ljós að margt þurfti að laga. Gústi lagðist því í það fyrstu dagana og setti saman fínan fyrirlestur sem tókst með ágætum og var Gústi okkur til mikils sóma. Það var eins og áður hefur komið fram, saman komið björgunarfólk víðsvegar af úr heiminum á ráðstefnunni. Þarna var m.a. enskur maður sem hafði mikinn áhuga á ungmennastarfi í tenglum við björgunarsveitir. Það er þáttur þar sem við Íslendingar stöndum mjög framarlega í og hefur því víða vakið athygli. Þarna hafði Gústi eignast aðdáendur sem voru sá enski og kona sem tilheyrði sömu björgunarsamtökum og hann. Gústi átti langt spjall við þau eitt kvöldið og fór vel á með þeim. Það spjall hélt síðan áfram hvar sem við hittum þau. Það fór síðan svo að hvert sem við fórum fylgdu þau okkur og var sá enski yfirleitt aldrei langt undan og hélt hann Gústa við efnið langtímum saman. Ég man sérstaklega eftir því þegar við félagarnir læddumst út eitt kvöldið og ætluðum að fá okkur rölt og skoða bæinn og leyfa Gústa að fá smá frí frá aðdáanda sínum. Þetta var fallegt kvöld, blankalogn og og gott veður. Við vorum sloppnir út af háskólasvæðinu og gengum niður stíg í átt að bænum. Það lá vel á okkur og við spjölluðum og gerðum að gamni okkar. Þá allt í einu heyrist kallað ofan úr brekkunni – “GÚSTI” ! Síðan kom einhver mannvera á harðahlaupum niður brekkuna í átt að okkur og á eftir kom önnur, eilítið minni. Þarna var aðdáandinn mættur ásamt vinkonu sinni. Gústi ræddi því unglingamál það sem eftir lifði kvöldsins á litlum pöbb í miðbæ Bangor. Á ráðstefnunni var mikið af athyglisverðum fyrirlestrum. Slökkviliðsmaður frá Englandi fjallaði um þjálfun hunda til að leita af leyfum eldfimra efna á brunavettvangi. Það var athyglisverður fyrirlestur og vitnaði hann nokkrum sinnum í okkur í þeim fyrirlestri. Amerísk kona hélt einnig fyrirlestur um þjálfun líkleitarhunda. Síðan voru allskyns fyrirlestrar um margt sem viðkemur flestum hliðum björgunarstarfa. Framleiðendur ýmiskonar útivistarútbúnaðar og björgunartækja voru með kynningu á ráðstefnunni. Þar voru margar athyglisverðar nýungar, bæði í fatnaði og tækjum. Þegar ráðstefnunni lauk og við vorum búnir að pakka saman var ekkert annað að gera en að ná næstu lest til London. Sú lestarferð gekk ágætlega og vorum við komnir til London á sunnudagskvöldi. Við fundum hótel í miðbænum þar sem við fengum herbergi á fínu verði. Þar höfðum við nú heldur betur keypt köttinn í sekknum. Herbergið var pínulítið eins og kústaskápur, búið tveimur rúmum, klósetti og sturtu. Það fór svo að við Valli sváfum í rúmunum á meðan Gústi svaf á gólfinu í hálfgerðu bæli, það lét hann ekki á sig fá þar sem hann hefur, eins og áður hefur komið fram, ótrúlega aðlögunarhæfni. Við vorum ekki að væla yfir þessu enda öllu vanir eftir “Jesse James Inn”. Við félagarnir notuðum síðasta daginn í að skoða okkur um í London. Það var virkilega gaman. “Batman” hafði komið sér fyrir á gluggakystu í konungshöllinni og var uppi fótur og fit um alla borg af þeim sökum. Við hins vegar létum það ekki á okkur fá frekar en Jesse James eða aðra minni spámenn. Síðar sáum við í fréttum að “Batman” var einstæður faðir sem var að mótmæla meðferð breska ríkisins á einstæðum feðrum. Ferðin gekk vel og lýstu aðstandendur ráðstefnunnar ánægju sinni með okkar hlut að henni. Við höfum í gegnum árin átt gagnlegt og ánægjulegt samstarf við NSARDA og hefur það skilað bæði okkur og þeim betri leitarhundum og meiri fagmennsku. Vonandi heldur þetta góða samstarf áfram um ókomin ár. Ég vil nota tækifærið og hvetja okkar menn í að fara á úttektarhelgar í Bretlandi og kynnast félögum okkar þar. Það hafa góðir hlutir verið að gerast hjá Leitarhundum SL og nauðsynlegt að hlúa að félögunum og eins að menn sýni frumkvæði og bíði ekki alltaf eftir því að stjórn, fræslunefnd eða leiðbeinendur rétti mönnum eitthvað nýtt og spennandi upp í hendurnar. Við erum jú einu sinni sjálboðaliðasamtök þar sem hundarnir eru okkar lífstíll. Steinar Gunnarsson, 2005 Úttekt á rústaleitarhundum hjá FEMA
Ástæða ferðarinnar Í nóvember síðastliðnum fór ég ásamt vini mínum, Haraldi Ingólfssyni frá Sauðárkróki, til Bandaríkjanna. Tilefni fararinnar var að fylgjast með úttekt á rústaleitarhundum hjá FEMA sem er alþjóðasveit Bandaríkjamanna. Við Haraldur erum báðir leiðbeinendur hjá Leitarhundum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Við höfðum verið í sambandi við Sonju Herritage, hundaþjálfara, vegna fararinnar. Sonja hafði séð um allan undirbúning úttektarinnar auk þess sem hún hafði gengið rösklega í það að koma okkur félögunum fyrir og hafa ofan af fyrir okkur á meðan á dvöl okkar stæði þar ytra. Lent í Baltimore Þegar við lentum í Baltimore, tók á móti okkur á flugvellinum, Tim Diggers, hundaþjálfari frá Maryland. Tim þessi var hress og skemmtilegur náungi og áttum við eftir að eiga með honum skemmtilegar stundir. Ferðinni var heitið til Fairfax sem er ekki svo ýkja langt frá Wasington. Tim vildi endilega fara með okkur smá túr um Wasington áður en hann færi með okkur á hótelið þar sem við áttum að gista fyrstu dagana. Hann sýndi okkur Hvíta húsið, stríðsminnisvarða og eitt og annað skemmtilegt. Eftir skoðunarferðina fórum við til Fairfax en þá var komin nótt og við orðnir ansi lúnir. Þó tók Tim ekki annað í mál en að við fengjum okkur ameríska steik áður en við færum í koju, og það varð úr. Formleg dagskrá átti að hefjast seinnipartinn næsta dag og ætluðum við snemma á fætur til þess að skoða svæðið sem úttektin átti að fara fram á. Próf og-æfingasvæðið skoðað Næsta morgun um klukkan sjö, kom Sonja og sótti okkur á hótelið. Á hótelinu gistu einnig flestir þátttakendurnir á úttektinni. Þarna voru auk okkar gestir frá Taiwan og Kanada komnir til að fylgjast með. Við vorum ferjuð með bílum frá slökkviliðinu á æfingasvæðið sem var skammt frá hótelinu. Svæðið tilheyrði slökkviliðinu og var einskonar þjálfunarbúðir fyrir slökkviliðsmenn. Aðstaðan var glæsileg þarna og virtist fátt skorta af tækjum og tólum í það minnsta. Þetta var skemmtilega samsettur hópur fólks og hunda, þó vakti það athygli okkar að flestir voru annað hvort slökkviliðsmenn eða lögreglumenn en þó voru þar undantekningar á. Flestir voru með þýska fjárhunda en þó voru þarna einstaka Labrador, Border Collie og önnur kyn sem ég kann ekki að nefna. Gestir frá Taiwan og Kanada Taivanarnir sögðust vera nýbyrjaðir að þjálfa leitarhunda og hafa nú yfir að ráða þrem til fjórum hundum. Þarna var líka Kanadamaður að nafni Jaclin Wayde, hann var inn á svipaðri bylgjulengd og við og náðum við því mjög vel saman. Hann var mættur þarna á svipuðum forsendum og við, þ.e. að kynna sér hlutina, ekki til að fara í próf, enda skildi hann sína hunda eftir heima. Wade er yfirhundaþjálfari hjá lögreglunni í Ontario og er afar vel að sér og klár náungi, með báða fætur á jörðinni, en því var ekki þannig farið með alla sem þarna voru. Þarna voru mættir nokkrir lögreglumenn frá New York með hundana sína, tveir frá Florída og svo aðrir héðan og þaðan frá Bandaríkjunum. Um kvöldið var haldinn fundur þar sem farið var yfir dagskrána fyrir næstu daga, prófreglur og fleira. Þrír dómarar voru mættir og lásu þeir upp reglurnar og svöruðu spurningum viðstaddra. Það var mikil spenna í loftinu og höfðu menn lagt mikið undir. Prófdagarnir Næsta dag klukkan sjö hófust svo prófin. FEMA prófin eru sett þannig upp að fyrst er tekið próf í hundafimi Það felst m.a. í því að hundarnir eiga að kifra í stigum, skríða gegnum göng og sitthvað fleira. Ef hundurinn stóðst hundafimina fékk gengið að reyna við próf í hlýðni og því fylgdi skapgerðarpróf. Hlýðnin var fólgin í því að hlýða innkalli og leggjast við skipun á miðri leið, ganga í taumi og laus við hæl. Liggja og bíða í þrjár mínútur(minnir mig). Skapgerðarprófið var þannig sett upp að ókunnugur aðili sótti hundinn þar sem hann var bundinn og gekk með hann eitthvert. Ef gengin stóðust þessi próf þá var próf í fjarlægðarstjórnun næst (eitthvað sem við tókum út hjá okkur fyrir nokkrum árum). Fjarlægðastjórnunin fólst í því að þrír n.k. pallar voru settir út á fótboltavöll, tveir til hliðanna og einn í enda vallarins. Síðan stillti hundamaðurinn sér upp með hundinn og sendi hann af stað í átt að einhverjum pallinum sem hundurinn átti að stökkva upp á og setjast og bíða eftir nýrri skipun, allt var þetta samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum. Næst voru þeir hundar sem stóðust fjarlægðarstjórnunarprófið prófaðir í að gelta á tunnu sem maður var inni í og áttu þeir að gelta í tæpa mínútu látlaust. Ef gengin stóðust allt það sem talið var upp fengu þau að reyna við sjálft leitarprófið. Prófin voru í áðurgreindri röð og ef einhver féll í einu prófinu fékk hann ekki að reyna við það næsta. Gengin sem féllu máttu að vísu reyna aftur næsta dag. Þetta var langur dagur, fyrsti dagurinn, og af fjórtán gengjum komust sjö alla leið í sjálft aðalprófið. Það var margt athyglisvert sem þarna kom fram en þó fannst okkur makalaus stífnin og sérviskan í sumum dómurunum. Með því meina ég að það var stundum eins og verið væri að vinna með vélar en ekki lifandi dýr. Líklega hefur verið um að ræða þekkingarleysi, að vísu svolítið skrítið því þarna voru innan um vel frambærilegir hundaþjálfarar sem ekki voru í prófi sem vel hefði mátt nýta í að dæma.Það kom okkur ekki á óvart að þeir hundar sem bestir voru í hlýðni, fimi- og stýringaprófunum voru afleitir sem leitarhundar og skítféllu í því prófi. Veðrið var gott alla dagana, svalt, svona dæmigert íslenskt peysuveður. Við gátum því ekki annað en glott þegar einn dómaranna, kona á miðjum aldri, hóf einn morguninn á því að minna menn á að hafa bílana í gangi svo hundunum yrði ekki kalt og teygja þá vel þegar þeir yrðu teknir út úr bílunum. Mér varð hugsað til minna hunda, hvað þeir ættu samkvæmt þessu kærulausan húsbónda sem væri búinn að geyma þá meira og minna í óupphituðu húsnæði og teygði þá aldrei fyrir æfingar, hvað þá þess utan. Ég sá líka fyrir mér svipinn á mínum hundum ef ég færi að taka upp á þessháttar tiktúrum, þeir myndu líklega afgreiða mig endanlega ruglaðan. En það eru sem betur fer ekki allir eins þenkjandi og gaman að kynnast sem flestum sjónarmiðum. Þarna hittum við líka bandaríska konu sem hafði flutt til Tyrklands og vann þar m.a. við að kenna Tyrkjum að þjálfa leitarhunda, var með n.k. björgunarfyrirtæki, afar athyglisvert og sýnir svo ekki verður um villst að Bandaríkjamenn eru fremstir í markaðssetningum hvort sem um er að ræða hamborgara eða leitarhunda. Það var gaman að fylgjast með leitarprófunum. Þarna voru tveir til þrír hundar sem voru mjög góðir. Áherslurnar voru svipaðar og hjá okkur hér heima, þ.e.a.s. ákveðin markering og sjálfstæð leit. Í prófum fyrir A hunda er falið í rústunum ýmislegt rusl s.s. matur, föt, líklykt og jafnvel lifandi dýr (í búrum) kettir og hundar. Allt gert til þess að reyna að trufla einbeitningu hundana í að finna lifandi fólk. Prófdagarnir gengu allir svipað fyrir sig og sáum við eitt og annað sem við ættum að geta nýtt okkur hérna heima. Þegar lagt var af stað í leitina fékk hundamaðurinn smá strik sem hann átti að standa á og mátti hann alls ekki fara út fyrir það meðan hundurinn var að leita fyrr en hundurinn var búinn að finna fyrsta fórnarlambið. Eftir það mátti stjórnandinn fylgja hundinum að vild um rústirnar. Þetta finnst mér mjög góð útfærsla sem reynir mikið á öryggi og sjálfstæði hundsins. Dagana eftir úttektina notuðum við í að kynna okkur ýmis konar leitarhundavinnu. Við eyddum einum degi í grunnþjálfun á rústaleitarhundum. Eins tókum við þátt í æfingum á líkleitarhundum en þarna þjálfa þeir hunda sérstaklega í því að finna lík. Það er ekki fyrir alla að standa í svoleiðis “sporti” en þeir aðilar sem voru með líkleitarhunda áttu líka fulla kassa af allskyns “líkamspörtum” beinum, blóði og fleiru. Lyktin var eins og gefur að skilja frekar viðbjóðsleg og heillaði þetta okkur ekki á nokkurn hátt. Við sáum líkleitarhundana virka vel og seinna í ferðinni kynntumst við lögreglumanni í Wasington sem hafði grafið líkamshluta niður og fór svo sama dag og við vorum þarna og fann hlutann, átján mánuðum síðar. Þessi hundar hafa mikið notagildi á þessum slóðum og eru því mikið notaðir. Víðavangsleitaræfing Einn daginn fórum við með vini okkar, Tim Diggers, á víðavangsleitaræfingu. Þangað voru mætt gengi héðan og þaðan af svæðinu. Æfð var bæði leit á víðavangi og í skógi þar sem leitað var með göngustíg. Víðavangsleitin sem slík var frekar frumstæð en hvernig þeir notuðu hundana við leitina í skóginum var aðdáunarvert og þar lærðum við margt nytsamlegt. Hundarnir markera með því að gelta hjá þeim týnda og var markeringin undantekningarlaust ákveðin og góð hjá þeim. Þetta var skemmtileg dagstund sem endaði, eins og jafnan þegar við þvældumst með Tim, með tuttugu únsu Melborne steik með öllu tilheyrandi. Gist á slökkvistöð Síðustu tvær næturnar sem við dvöldum í Bandaríkjunum gistum við á slökkvistöð sem var skammt frá þeim nafntogaða þjóðvegi Route 66. Slökkviliðsmennirnir á stöðinni sem gjarnan var nefnd “Tuttugu og einn” tóku okkur eins og höfðingjum. Ef við vildum fara eitthvað var okkur ekið um á sjúkrabíl ef ekkert annað farartæki var til taks. Við sátum langt frameftir nóttu og ræddum við slökkviliðsmennina (sem voru reyndar sumir sjúkraflutningamenn líka) milli þess sem þeir sinntu útköllum. Í þeim samtölum lærði maður margt auk þess sem þeir sýndu okkur margt fróðlegt. Eins og gefur að skilja þá var oft ansi annasamt á slökkvistöðinni og eitt og annað sem kom upp á. Mörg útköllin voru vegna umferðarslysa á þjóðvegi 66. Ég hafði komist að því fyrr í ferðinni í samtölum mínum við kollega mína í lögreglunni að þeir höfðu ákveðnar skoðanir varðandi öryggismál og búnað í bifreiðum. T.d. leggja þeir mikið upp úr því að fólk noti bílbelti við akstur og litu á það sem eitt af stóru málunum ef menn notuðu ekki bílbelti. Þess má geta að þeim skortir ekki það sem við köllum stóru málin hér heima, þ.e. morð,rán og sv.frv.. Þetta er hugsunarháttur sem við Íslendingar mættum taka okkur til eftirbreytni. Þeir sögðu okkur það líka þarna á slökkvistöðinni að algengustu umferðarslysin og oft þau ljótustu væru andlitsáverkarnir sem hlytust þegar menn væru ekki í belti og færu í framrúðuna. Þetta sáum við meira að segja þegar 15 ára stúlka lenti í árekstri með bróður sínum en hann var ökumaður og hún sat við hliðina á honum í farþegasæti fram í. Þau lentu í einhverju “hnubbi” eða óku saman við aðra bifreið með þeim afleiðingum að stúlkan lenti með andlitið í framrúðunni og skarst vægast sagt mjög illa í framan. Drengurinn slapp hins vegar ómeiddur enda var hann í bílbelti. Meðan við dvöldum á slökkvistöðinni þurftum við ekki að hafa áhyggjur af því að svelta frekar en hina dagana. Nú far farið að líða að þakkagjörðarhátíð þeirra Bandaríkjamanna. Það er svipuð hátíð og jólin. Seinna kvöldið okkar á “Tuttugu og einum” var eldaður kalkúnn, enginn smá kalkúnn, hann var líkari strúti. Við vorum sextán karlar þarna, flestir miklir matmenn og eftir að hafa belgt sig út var enn eftir af fuglinum. Skrítin lestarferð Nú var komið að því að fara niður til Wasington. Við höfðum mælt okkur mót við Jim Lagula, hundaþjálfara hjá lögreglunni í Wasingston, en hann ætlaði að sýna okkur þeirra aðstöðu og hunda. Hann ætlaði líka að sýna okkur um í borginni og kynna okkur störf lögreglunnar. Við vorum búnir að kynna okkur lestarsamgöngurnar og ákveða ferðaplanið til Washington. Það gekk bara nokkuð vel og komumst við að lokum í neðanjarðarlest áleiðis til Washington. Það telst nú yfirleitt ekki til tíðinda að fara í lestarferð og er frekar algengur ferðamáti annarsstaðar en á Íslandi. Þessi lestarferð var þó ekki alveg tíðindalaus og eflaust eftirminnileg, þá sérstaklega fyrir Halla sem var að fara í fyrsta skipti í lest. Þegar við komum inn í lestina settumst við í sitthvora sætaröðina enda voru fáir aðrir í þeim vagni sem við völdum okkur. Síðan lagði lestin af stað en stoppaði þó reglulega á stoppustöðvum og fleiri farþegar bættust við. Ekki vorum við búnir að ferðast lengi þegar vagninn var orðinn þétt setinn, eins stóð fjöldi manns og hélt sér í þar til gerðar súlur og bönd sem héngu niður úr loftinu. Þarna sátu menn og sögðu lítið enda flestir eflaust ný vaknaðir og í þungum þönkum á leið til vinnu, þar til allt í einu að einn asískur, stútúngs karl tekur upp bók og byrjar að syngja sálm. Viðstaddir urðu þrumu lostnir en létu þó ekki bera á neinu. Karlinn hélt áfram að syngja drjúga stund og söng eina tvo sálma, síðan stöðvaði lestin á enn einni stoppustöðinni og söngvarinn kvaddi og stökk út. Ung kona sem staðið hafði framan við mig fór skyndilega að riða og vissi ég ekki fyrr en hún féll yfir mig þar sem ég sat þarna. Hún var gjörsamlega rænulaus, konu greyið, og virtist flestum viðstöddum vera nokk sama og héldu áfram að annað hvort lesa eða gera eitthvað annað. Við Halli byrjuðum að stumra yfir konunni, sem smámsaman fékk rænu og kom til sjálfs síns. Allt fór þetta nú vel og var hún okkur mikið þakklát fyrir aðstoðina. Heimsókn til Metropolitan Police í Wasington Þegar við komumst loks til Washington beið Jim eftir okkur við brautarstöðina á glæsilegum Ford lögreglubíl. Hann fór fyrst með okkur góðan rúnt um borgina og síðan fórum við í hundaþjálfunarstöð sem lögreglan hefur yfir að ráða. Þar fengum við að sjá ýmiskonar lögregluhunda og eins að skoða aðstöðuna. Þarna áttum við langt og skemmtilegt spjall við yfirþjálfara hundadeildarinnar, varðstjóra sem ég man ekki hvað heitir. Þeir nota aðallega þýska fjárhunda. Eins höfðu þeir nokkra Malinois hunda en sögðust þó vera farnir að hætta að nota þá þar sem þeim fannst þeir ekki nógu traustir. Þarna voru fíknefnahundar, árásarhundar, sprengjuleitarhundar og líkleitarhundar. Hundadeildin þarna sér einnig um búnað og bíla fyrir óeirðalögregluna og vildi svo skemmtilega til að þegar við vorum rétt farnir af stað með Jim í eftirlitsferð, þá var útkall á óeirðardeildina að Hvíta húsinu þar sem hópur mótmælenda var með ólæti. Jim þurfti því að fara til baka og skipta um bíl en við fórum í bíl með varðstjóranum og áður en við vissum vorum við komnir á fleygiferð niður til Washington á leiðinni í útkall að Hvíta húsinu. Allt fór þetta vel og eftir skemmtilegan dag með lögreglumönnunum, sem leystu okkur út með góðum gjöfum, fórum við og skoðuðum okkur betur um í borginni. Síðasta daginn okkar sótti Sonja okkur á slökkvistöðina og fór með okkur heim til sín og eiginmans hennar Jim. Eftir góðan göngutúr í skóginum handan við hús Sonju og Jim fórum við heim til foreldra Sonju þar sem okkur var boðið í enn eina þakkargjörðarmáltíðina. Sú máltíð dugði okkur þangað til við vorum komnir í Select í Reykjavík. Útkoman Ferðin var í alla staði góð og móttökurnar frábærar og greinilegt að íslenskir björgunarsveitamenn hafa getið sér gott orð á þessum slóðum, og kom það okkur vel. Dagskráin var stíf og var sá tími sem við höfðum úr að moða gjörnýttur. Það er að okkar mati margt sem við lærðum þarna og við eigum áreiðanlega eftir að nýta okkur þá þekkingu. Ég vona að við eigum eftir að eiga gott samstarf við þessa bandarísku vini okkar og ég er ekki í vafa um að við getum lært eitt og annað af þeim og eins þeir af okkur. Ég vona einnig að við komum til með að sjá leitarhunda frá okkur sem allra fyrst í Íslensku alþjóðaveitinni. Ég sé þó ekki fyrir mér að við tileinkum okkur úttektarreglur FEMA óbreyttar. Margt er þó mjög gott við þær en annað að mínu mati afleitt. Við eigum eflaust fljótlega eftir að koma okkur upp góðum og vel frambærilegum úttektarreglum í rústaleit. Ég vil að lokum þakka Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu fyrir að styrkja annan okkar til fararinnar og eins vil ég sérstaklega þakka fyrir umdæmissjóði björgunarsveitanna á Austurlandi fyrir þeirra framlag. Desember 2002 Steinar Gunnarsson Neskaupstað Stundum getur “stutt ferðalag” orðið alllangt hér á landi, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Ófærð og illviðri tefja og gera mönnum oft lífið leitt. Þannig var það allavega hjá mér eftir annars mjög ánægjulega viðveru um borð í varðskipinu TÝ. Þar hafði ég verið um borð í átta daga, vegna sjómælingaverkefnis.
Þriðjudagsmorguninn 26. október síðastliðinn, komum við á varðskipinu TÝ í höfn á Siglufirði. Þar fór ég í land því að ég hafði fengið far þaðan með flutningabíl yfir á Sauðárkrók, til að ná flugvélinni til Reykjavíkur um kvöldið. Bíllinn átti að leggja af stað uppúr eitt en af því varð nú ekki. Ógurlegir “sniglar”, 3 stk. biðu þess að verða fluttir til Sauðárkróks og urðu að fara með í þessari ferð. Sniglarnir, sem notaðir eru við loðnubræðslur, voru svo stórir og langir að þeir pössuðu ekki inn í bílinn og ekki var hægt að setja þá á toppinn, því þá kæmumst við ekki í gegn um göngin. Bílstjóranum fannst tilvalið að fá aðstoðarmann við þetta og var ég óspart nýttur. Á endanum reddaðist þetta allt saman og við fengum fylgd lyftara og vörubíls gegnum göngin og þá var þessu öllu saman dröslað upp á topp. Jæja, þá var klukkan orðin hálffjögur, en ég átti að fljúga kl. 19:10, mæting 18:40, og nægur tími til stefnu, ekki nema klukkutíma akstur til Sauðárkróks. En vitlaust veður var á leiðinni, fljúgandi hálka og sóttist ferðin seint, en um hálfsjöleytið er við loks komum á Sauðárkrók var orðið hæglætis veður. Þá var orðið vitlaust veður í Reykjavík og öllu flugi aflýst, nú voru góð ráð dýr. Ég hringdi í vin minn og félaga Steinar Gunnarsson lögreglumann á Sauðárkróki. Hann bauð mér að sjálfsögðu kvöldmat og gistingu. Við erum báðir í leitarhundabransanum, hann formaður Leitarhunda SVFÍ og ég ritari. Okkur fannst því tilvalið að nota tímann og ræða málin. Steinar var að fara til Reykjavíkur morguninn eftir og ætlaði ég að fá far með honum, því var ætlunin að fara snemma í háttinn, en þá hringdi síminn. Útkall rauður, þriggja manna var saknað austur á Mývatni og vantaði leitarhunda strax á staðinn. Björgunarsveit Sauðárkróks ákveður þegar í stað að senda tvo menn með hunda austur og fór ég með þeim. Ég hringdi síðan í Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og bað um að ef þyrla yrði send á Mývatn, yrði hundurinn minn látinn fljóta með. Mjög vel var tekið í það og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Er á Mývatn var komið, var klukkan rúmlega 3 aðfaranótt miðvikudags. Við fórum rakleiðis til leitarstjórnar og lögðum á ráðin. Okkur var strax úthlutað svæði, og gengum við strönd Nesjalandstanga. Einn maður hafði þegar fundist, því miður látinn, og beindum við hundunum á það svæði. Enn var tveggja manna saknað. Hundarnir 4 sem voru með okkur gáfu allir vísbendingar á sama stað. En þeir geta greint lykt langar vegalengdir, þó svo að fólk sé í vatni. Þannig geta leitarhundar nýst við að þrengja leitarsvæði á sjó og á vötnum. Einnig er hægt að þjálfa hundana í að staðsetja hvar lyktin kemur upp á yfirborðið og þá er leitað með þá á bátum. Um 6:30 kom svo þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF og með henni þrír hundar og tveir hundamenn. Þyrlan lenti og skilaði af sér hundum og mönnum, fór síðan strax aftur í loftið til leitar á vatninu. Mér var tilkynnt að hundurinn minn væri kominn og að honum yrði komið til mín þar sem ég var niðri við vatnið. Eftir skamma stund kom svo gulur hnoðri skoppandi, og var mjög kátur að sjá húsbónda sinn eftir 9 daga. Hún hoppaði og gelti af kátínu, en ekkert svona góða, farðu að leita. Tíkin lét ekki segja sér það tvisvar og hóf umsvifalaust leit og greip fljótlega einhverja “vindlykt” og fylgdi henni eftir og endaði á sama stað og hinir fjórir hundarnir. Ekki fór á milli mála að frá þessum stað, upp í vindinn og út á vatnið, var eitthvað. Leitarskilyrði voru mjög erfið, vatnið mjög gruggugt og kalt. Í ljósaskiptunum finna þyrlumenn bát þremenninganna og þar með þrengdist leitarsvæðið enn frekar. Leit var haldið áfram að mönnunum tveimur en upp úr hádegi tilkynnir áhöfn þyrlunnar að þeir séu hættir leit, enda búnir að skila sínu. Ég og hundurinn minn Birta gerðum okkur klár til brottfarar og skömmu síðar lenti þyrlan þar sem við stóðum við vatnið og tók okkur uppí. Ennþá var ég á ferðalagi, nú í loftinu. Við flugum til Akureyrar til að taka eldsneyti og til að nærast, síðan var flogið til Reykjavíkur. Á leiðinni sá ég yfir fjallaskagann í átt að Siglufirði þar sem ferðalagið byrjaði rúmum sólarhring áður og þá féll ég í svefn. Reykjavík nóvember 2001. Ágúst Magnússon |
HöfundarFréttaritarar / blogghöfundar eru hinir ýmsu meðlimir Leitarhunda SL Tímabil
July 2018
Flokkar |