Leitarhundar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar
Menu

Minning um Elvis

11/23/2003

 
Það hefur aldrei hvarflað að mér að skrifa minningargreinar um þau dýr sem ég hef misst um dagana en þau eru orðin ansi mörg, enda hef ég átt skepnur frá því að ég man eftir mér. Þó get ekki ekki hjá því komist að skrifa nokkrar línur um hann Elvis minn, sem mér finnst einn merkilegasti og besti vinnuhundur sem ég hef kynnst um dagana að öllum öðrum ólöstuðum. Það sagði einhverntíman einhver, þegar verið var að segja hetjusögur af hundum, að eftir að þeir féllu frá þá yrðu þeir oft helmingi betri en þeir voru í lifanda lífi. Það er eflaust margt til í því en eftir að Elvis gamli fór þá fór ég að hugsa til baka eða um öll þau ár og þær stundir sem við áttum saman. Minnist ég hans með þakklæti og virðingu.

Fyrstu kynni: 
Elvis var sex vikna gamall þegar ég fékk hann frá Gunnari á Daðastöðum en Elvis var undan Spott og Freknu frá Daðastöðum. Ég hafði verið að spila á Sauðárkróki og hafði fengið systur mína sem bjó á Akureyri og var þar við nám á þeim tíma, til að taka á móti hvolpi sem ég var að fá norðan af Kópaskeri. Næsta dag þegar ég kom loksins að sækja hvolpinn þá var hernaðarástand á heimilinu. Fjögurra ára systurdóttir min var uppi í sófa og hafði ekki getað gengið um gólfin frá því að hvolpurinn kom, sem réðist á hana með kjafti og klóm í hvert skipti sem hann gat. Systir mín rambaði á barmi taugaáfalls enda búið og míga og skíta um alla íbúðina, naga skóna og eyðileggja eitt og annað. Þarna var vægast sagt allt í hers höndum. Ég man að ég stóð á stofugólfinu og horfði á þær mæðgur og íbúðina til skiptis, enginn sagði neitt en íbúðin var eins og eftir kjarnorkuárás. Guð minn góður hugsaði ég, þetta hlýtur að vera risastórt villidýr sem Gunnar hefur sent mér fyrir einhvern misskilning. Rétt í þvi kom lítill, grindhoraður hvolpskratti, skoppandi út úr svefnherberginu. Hann var svartur í hvítur með blesu og doppu á mjöðminni og með þennan glampa í augunum sem ég kann ekki að lýsa nánar, en allir kannast samt við sem þekktu hann. Hann stoppaði smá stund og settist niður, horfði á mig og velti vöngum smá stund , síðan réðist hann á mig og beit mig – þarna var Elvis mættur. Ég var að velta fyrir mér nafninu og valið stóð á milli Álfur og Elvis. Það varð svo úr að vinir mínir í hljómsveitinni sannfærðu mig að Elvis væri rétta nafnið. Hann var svo lítill greyið og pervisinn að ég setti hann bara inn á mig og hafði hann þar í fluginu austur. Hann afrekaði að vísu eitt og annað á leiðinni heim, m.a. annars að bíta rígfullorðinn mann á flugvellinum á Akureyri og sitthvað fleira. Þetta voru fyrstu kynni okkar Elvisar. Síðar áttum við eftir að eiga ótrúlega góðar stundir saman félagarnir.


Uppeldið: 
Það tók sjö mánuði að gera Elvis húshreinan og vitnar konan mín, hún Kolbrún, oft í þann tíma þegar við vorum að ala hann upp, þá sérstaklega þegar ég kem með hvolpa heim eða orða það við hana hvort við ættum ekki að fara að taka hvolp til að þjálfa. Elvis var vægast sagt alveg ferlegur prakkari. Ég held að ef hann hefði verið maður hefði hann verið settur á rídalín. En því var ekki við komið svo við létum okkur bara hafa það. Það vantaði ekki að hann var fljótur að læra – hann var eiginlega fullfljótur að því oft á tíðum. Hann hætti smámsaman að bíta fólk eins og hvolpar yfirleitt gera en fór þá að bíta aðra hunda í staðinn og var það illt skárra. Hann hætti því reyndar líka þegar hann var kominn á fullorðins ár. Eitt af sérkennum Elvisar voru eyrun, hægra spert en hitt lafandi. Þetta var álíka lengi að þróast og það tók að gera hann húshreinann og “ákvað” hann einn daginn að hafa eyrum svona.

Leitarhundur: 
Ég fékk mér Elvis gagngert til að nota hann sem leitarhund. Við hjónin áttum fyrir tíkina Ræsu sem ég hafði verið með í þjálfun.Það var frábær tík en við höfðum því miður verið mjög óheppin með leiðsögn svo við höfðum ekki náð þeim árangri sem við hefðum annars getað. Þetta var á þeim tímum þegar menn voru almennt ekki mjög vel að sér í þjálfun á leitarhundum og ætla ég ekki að fara að tíunda það frekar hér. Ég byrjaði strax að þjálfa Elvis og fór oft ótroðnar slóðir í grunnþjálfuninni. Hann var vægast sagt mjög vinnusamur og hafði endalausa orku og áhuga og slokknaði sá áhugi aldrei. Ég og félagar mínir, þeir Guðbjartur Hjálmarsson og Kristinn Hannesson, æfðum öllum stundum sem við mögulega gátum og lásum allan þann fróðleik um hunda sem við komumst yfir. Það átti síðar eftir að skila sér svo um munaði.

Námskeið: 
Fyrsta “námskeiðið” sem ég fór með Elvis á var nokkurskonar kynning á sumarleit hjá BHSÍ, þ.e. víðavangs – og sporaleit, sem haldið var á Nesjavöllum 1992 að mig minnir. Þangað komu “sérfræðingar” frá Noregi til að kenna okkur. Það er skemmst frá því að segja að Elvis sem þá var nokkura mánaða fór á kostum og sagði Norðmaðurinn sem var með okkur að hann ætti auðveldlega að geta staðist B kröfur þeirra Norðmanna og eftir skamman tíma A kröfurnar. Hvolpurinn var ótrúlega efnilegur en bringselið sem hengt var á hann varð oft til þess að hann flæktist í því og var stundum á þremur fótum o.s.fr En það tókum við síðar út og notum ekki lengur. Ellefu mánaða stóðst Elvis B í snjóflóðaleit og næsta sumar á eftir tók hann hæstu gráðu í sumarleit. Þar á eftir komu mörg námskeið og hef ég hreinlega ekki tölu á þeim.

Horft yfir: 
Á þessum árum þjáfuðum við hundana okkar líka í að rekja spor samhliða víðavangsleitinni og var Elvis mjög fínn sporhundur og nýttist það oft mjög vel í útköllum. Hann rakti elst rúmlega sólahrings gamla slóð, en það var að vísu við bestu hugsanlegu aðstæður. Hann var alltaf að og þurfti maður oft að loka hann af til að stoppa hann – eða bara dæmigerður Border Collie. Elvis var mikið notaður sem leitarhundur og líka sem fjárhundur enda með magnað auga og mikla næmni. Hann var einnig góður í að reka hross og nýttist mér alveg ákaflega vel í alla staði. Hann hafði hæfileika sem mér finnst vanta í alltof marga Boder Collie hunda á Íslandi í dag. Þessi hundur var alltaf að koma manni á óvart og átti mörg ótrúleg afrek sem sum vöktu m.a. athygli út fyrir landsteinana. Því miður er ekki hægt að fara nánar ofan í saumana á mörgum þeim afrekum þar sem yfirleitt er um viðkvæm mál að ræða eins og gefur að skilja. Það var frábært að vinna með þennan hund, einkum og sér í lagi vegna þess að hann gabbaði mann aldrei og var alltaf með hugann við vinnuna og gafst aldrei upp. Hann var með hart skap en var einnig ljúfur og blíður. Þegar Elvis var u.þ.b.átta ára fór skrokkurinn að gefa sig, m.a. fyrir það að hann var orðinn slitinn eftir mikla notkun. Þá fór ég að nota hann minna enda var ég þá kominn með annan hund líka, eða hann Treason. Þó notaði ég alltaf Elvis reglulega og reyndi þá að fara sparlega með hann. Síðasta útkallið sem hann fór í var á Seyðisfirði í fyrravetur. Þar sýndi hann að hann hafði engu gleymt og lagði sig allan fram. Að vísu lá hann í tvo daga á eftir. Þá ákvað ég að hann fengi að endanlega að setjast í helgan stein. Síðustu árunum eyddi Elvis ásamt Ræsu hjá foreldrum mínum sem önnuðust þau mjög mjög vel enda höfðu hundarnir alltaf verið mjög hændir að þeim. Ræsa dó fyrr á árinu, sautján ára gömul og fór þá Elvis fljótlega eftir það að hraka mikið og dó sjötta nóvember síðastliðinn, tólf ára gamall.Þannig að það má segja að þau hafi farið hönd í hönd enda voru þau alltaf náin. Nokkrir hundar eru til undan Elvis og þar á meðal tveir leitarhundar, þau Depill á Siglufirði sem er frábær vinnuhundur og Panda sem er nánast ljósrit af Elvis, mögnuð tík á allan hátt. Eins er talsvert til af afkomendum um allt land en það er skammarlegt hvað ég hef lítið getað fylgst með þeim.

Höfðingjar: 
Ég held að í rauninni þegar öllu er á botninn hvolft hafi þessi hundur kennt okkur miklu meira heldur en við kenndum honum. Sama á við hunda eins og Mikka, Ræsu, Kol, Grandó, Snabba, Freyju, Sesar og fleiri, sem öll voru hálfgerð tilraunadýr á tímum þar sem verið var að ryðja brautina fyrir hina sem á eftir komu. Þetta voru miklir höfðingjar og mér finnst í góðu lagi að heiðra minningu þeirra.

Lokaorð: 
Þjálfun víðavangs leitarhunda er erfiðasta þjálfun sem hægt er að leggja á nokkurn hund og ef rétt er að staðið er þetta eitt af gagnlegustu “tækjum” sem við höfum til leitar að týndu fólki. Ég hef undanfarið hlustað á fólk fara með alskyns dylgjur bæði varðandi stofnun Leitarhunda SL (eða Leitarhunda SVFÍ á sínum tíma) og eins um starfsemi leitar-og björgunarhundasamtakanna á Íslandi. Menn hafa verið að slá fram ýmiskonar skoðunum á málefnum hundasamtakanna o.s.fr. og mælt með sameiningu þeirra og allt þar fram eftir götunum. Eflaust væri heppilegast að sameina þessar sveitir allar, eða álíka heppilegt og að sameina allar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu… sem væri líklegra gáfulegra fyrir margra hluta sakir. Þó vona ég að menn treysti okkur hundamönnum áfram til að sjá um okkar þátt, þ.e.a.s. að halda áfram að sjá til þess að frambærilegir hundar, sem eru undir ströngu gæðaeftirliti, verði áfram til á sem flestum stöðum á landinu, hvort sem við kjósum að gera það með einni eða fleiri sveitum.

​
Steinar Gunnarsson

    Höfundar

    Fréttaritarar / blogghöfundar eru hinir ýmsu meðlimir Leitarhunda SL

    Tímabil

    July 2018
    October 2017
    May 2017
    March 2017
    March 2016
    February 2016
    June 2014
    May 2014
    August 2012
    July 2012
    November 2011
    July 2011
    January 2005
    November 2003
    October 2003
    December 2002
    May 2002

    Flokkar

    All
    Aðalfundur
    Blogg
    Námskeið
    Útköll
    Útköll
    Vetrarnámskeið

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um Leitarhunda
    • Stjórn og hópstjórar
    • Siðareglur Leitarhunda
    • Lög Leitarhunda
    • Úttektarreglur
    • Gerast meðlimur
  • Styrkja okkur
  • Myndir
  • Fróðleikur
  • Hafa samband
  • English
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um Leitarhunda
    • Stjórn og hópstjórar
    • Siðareglur Leitarhunda
    • Lög Leitarhunda
    • Úttektarreglur
    • Gerast meðlimur
  • Styrkja okkur
  • Myndir
  • Fróðleikur
  • Hafa samband
  • English