Leitarhundar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar
Menu

USA ferð - Úttekt á rústaleitarhundum hjá FEMA

12/12/2002

 
Úttekt á rústaleitarhundum hjá FEMA 
​


Ástæða ferðarinnar 
Í nóvember síðastliðnum fór ég ásamt vini mínum, Haraldi Ingólfssyni frá Sauðárkróki, til Bandaríkjanna. Tilefni fararinnar var að fylgjast með úttekt á rústaleitarhundum hjá FEMA sem er alþjóðasveit Bandaríkjamanna. Við Haraldur erum báðir leiðbeinendur hjá Leitarhundum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Við höfðum verið í sambandi við Sonju Herritage, hundaþjálfara, vegna fararinnar. Sonja hafði séð um allan undirbúning úttektarinnar auk þess sem hún hafði gengið rösklega í það að koma okkur félögunum fyrir og hafa ofan af fyrir okkur á meðan á dvöl okkar stæði þar ytra.


Lent í Baltimore 
Þegar við lentum í Baltimore, tók á móti okkur á flugvellinum, Tim Diggers, hundaþjálfari frá Maryland. Tim þessi var hress og skemmtilegur náungi og áttum við eftir að eiga með honum skemmtilegar stundir. Ferðinni var heitið til Fairfax sem er ekki svo ýkja langt frá Wasington. Tim vildi endilega fara með okkur smá túr um Wasington áður en hann færi með okkur á hótelið þar sem við áttum að gista fyrstu dagana. Hann sýndi okkur Hvíta húsið, stríðsminnisvarða og eitt og annað skemmtilegt. Eftir skoðunarferðina fórum við til Fairfax en þá var komin nótt og við orðnir ansi lúnir. Þó tók Tim ekki annað í mál en að við fengjum okkur ameríska steik áður en við færum í koju, og það varð úr. Formleg dagskrá átti að hefjast seinnipartinn næsta dag og ætluðum við snemma á fætur til þess að skoða svæðið sem úttektin átti að fara fram á.


Próf og-æfingasvæðið skoðað 
Næsta morgun um klukkan sjö, kom Sonja og sótti okkur á hótelið. Á hótelinu gistu einnig flestir þátttakendurnir á úttektinni. Þarna voru auk okkar gestir frá Taiwan og Kanada komnir til að fylgjast með. Við vorum ferjuð með bílum frá slökkviliðinu á æfingasvæðið sem var skammt frá hótelinu. Svæðið tilheyrði slökkviliðinu og var einskonar þjálfunarbúðir fyrir slökkviliðsmenn. Aðstaðan var glæsileg þarna og virtist fátt skorta af tækjum og tólum í það minnsta. Þetta var skemmtilega samsettur hópur fólks og hunda, þó vakti það athygli okkar að flestir voru annað hvort slökkviliðsmenn eða lögreglumenn en þó voru þar undantekningar á. Flestir voru með þýska fjárhunda en þó voru þarna einstaka Labrador, Border Collie og önnur kyn sem ég kann ekki að nefna.


Gestir frá Taiwan og Kanada 
Taivanarnir sögðust vera nýbyrjaðir að þjálfa leitarhunda og hafa nú yfir að ráða þrem til fjórum hundum. Þarna var líka Kanadamaður að nafni Jaclin Wayde, hann var inn á svipaðri bylgjulengd og við og náðum við því mjög vel saman. Hann var mættur þarna á svipuðum forsendum og við, þ.e. að kynna sér hlutina, ekki til að fara í próf, enda skildi hann sína hunda eftir heima. Wade er yfirhundaþjálfari hjá lögreglunni í Ontario og er afar vel að sér og klár náungi, með báða fætur á jörðinni, en því var ekki þannig farið með alla sem þarna voru. Þarna voru mættir nokkrir lögreglumenn frá New York með hundana sína, tveir frá Florída og svo aðrir héðan og þaðan frá Bandaríkjunum. Um kvöldið var haldinn fundur þar sem farið var yfir dagskrána fyrir næstu daga, prófreglur og fleira. Þrír dómarar voru mættir og lásu þeir upp reglurnar og svöruðu spurningum viðstaddra. Það var mikil spenna í loftinu og höfðu menn lagt mikið undir.


Prófdagarnir 
Næsta dag klukkan sjö hófust svo prófin. FEMA prófin eru sett þannig upp að fyrst er tekið próf í hundafimi Það felst m.a. í því að hundarnir eiga að kifra í stigum, skríða gegnum göng og sitthvað fleira. Ef hundurinn stóðst hundafimina fékk gengið að reyna við próf í hlýðni og því fylgdi skapgerðarpróf. Hlýðnin var fólgin í því að hlýða innkalli og leggjast við skipun á miðri leið, ganga í taumi og laus við hæl. Liggja og bíða í þrjár mínútur(minnir mig). Skapgerðarprófið var þannig sett upp að ókunnugur aðili sótti hundinn þar sem hann var bundinn og gekk með hann eitthvert. Ef gengin stóðust þessi próf þá var próf í fjarlægðarstjórnun næst (eitthvað sem við tókum út hjá okkur fyrir nokkrum árum). Fjarlægðastjórnunin fólst í því að þrír n.k. pallar voru settir út á fótboltavöll, tveir til hliðanna og einn í enda vallarins. Síðan stillti hundamaðurinn sér upp með hundinn og sendi hann af stað í átt að einhverjum pallinum sem hundurinn átti að stökkva upp á og setjast og bíða eftir nýrri skipun, allt var þetta samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum.


Næst voru þeir hundar sem stóðust fjarlægðarstjórnunarprófið prófaðir í að gelta á tunnu sem maður var inni í og áttu þeir að gelta í tæpa mínútu látlaust. Ef gengin stóðust allt það sem talið var upp fengu þau að reyna við sjálft leitarprófið. Prófin voru í áðurgreindri röð og ef einhver féll í einu prófinu fékk hann ekki að reyna við það næsta. Gengin sem féllu máttu að vísu reyna aftur næsta dag. Þetta var langur dagur, fyrsti dagurinn, og af fjórtán gengjum komust sjö alla leið í sjálft aðalprófið. Það var margt athyglisvert sem þarna kom fram en þó fannst okkur makalaus stífnin og sérviskan í sumum dómurunum. Með því meina ég að það var stundum eins og verið væri að vinna með vélar en ekki lifandi dýr. Líklega hefur verið um að ræða þekkingarleysi, að vísu svolítið skrítið því þarna voru innan um vel frambærilegir hundaþjálfarar sem ekki voru í prófi sem vel hefði mátt nýta í að dæma.Það kom okkur ekki á óvart að þeir hundar sem bestir voru í hlýðni, fimi- og stýringaprófunum voru afleitir sem leitarhundar og skítféllu í því prófi. Veðrið var gott alla dagana, svalt, svona dæmigert íslenskt peysuveður. Við gátum því ekki annað en glott þegar einn dómaranna, kona á miðjum aldri, hóf einn morguninn á því að minna menn á að hafa bílana í gangi svo hundunum yrði ekki kalt og teygja þá vel þegar þeir yrðu teknir út úr bílunum. Mér varð hugsað til minna hunda, hvað þeir ættu samkvæmt þessu kærulausan húsbónda sem væri búinn að geyma þá meira og minna í óupphituðu húsnæði og teygði þá aldrei fyrir æfingar, hvað þá þess utan. Ég sá líka fyrir mér svipinn á mínum hundum ef ég færi að taka upp á þessháttar tiktúrum, þeir myndu líklega afgreiða mig endanlega ruglaðan.


En það eru sem betur fer ekki allir eins þenkjandi og gaman að kynnast sem flestum sjónarmiðum. Þarna hittum við líka bandaríska konu sem hafði flutt til Tyrklands og vann þar m.a. við að kenna Tyrkjum að þjálfa leitarhunda, var með n.k. björgunarfyrirtæki, afar athyglisvert og sýnir svo ekki verður um villst að Bandaríkjamenn eru fremstir í markaðssetningum hvort sem um er að ræða hamborgara eða leitarhunda. Það var gaman að fylgjast með leitarprófunum. Þarna voru tveir til þrír hundar sem voru mjög góðir. Áherslurnar voru svipaðar og hjá okkur hér heima, þ.e.a.s. ákveðin markering og sjálfstæð leit. Í prófum fyrir A hunda er falið í rústunum ýmislegt rusl s.s. matur, föt, líklykt og jafnvel lifandi dýr (í búrum) kettir og hundar. Allt gert til þess að reyna að trufla einbeitningu hundana í að finna lifandi fólk.


Prófdagarnir gengu allir svipað fyrir sig og sáum við eitt og annað sem við ættum að geta nýtt okkur hérna heima. Þegar lagt var af stað í leitina fékk hundamaðurinn smá strik sem hann átti að standa á og mátti hann alls ekki fara út fyrir það meðan hundurinn var að leita fyrr en hundurinn var búinn að finna fyrsta fórnarlambið. Eftir það mátti stjórnandinn fylgja hundinum að vild um rústirnar. Þetta finnst mér mjög góð útfærsla sem reynir mikið á öryggi og sjálfstæði hundsins. Dagana eftir úttektina notuðum við í að kynna okkur ýmis konar leitarhundavinnu. Við eyddum einum degi í grunnþjálfun á rústaleitarhundum. Eins tókum við þátt í æfingum á líkleitarhundum en þarna þjálfa þeir hunda sérstaklega í því að finna lík. Það er ekki fyrir alla að standa í svoleiðis “sporti” en þeir aðilar sem voru með líkleitarhunda áttu líka fulla kassa af allskyns “líkamspörtum” beinum, blóði og fleiru. Lyktin var eins og gefur að skilja frekar viðbjóðsleg og heillaði þetta okkur ekki á nokkurn hátt. Við sáum líkleitarhundana virka vel og seinna í ferðinni kynntumst við lögreglumanni í Wasington sem hafði grafið líkamshluta niður og fór svo sama dag og við vorum þarna og fann hlutann, átján mánuðum síðar. Þessi hundar hafa mikið notagildi á þessum slóðum og eru því mikið notaðir.


Víðavangsleitaræfing 
Einn daginn fórum við með vini okkar, Tim Diggers, á víðavangsleitaræfingu. Þangað voru mætt gengi héðan og þaðan af svæðinu. Æfð var bæði leit á víðavangi og í skógi þar sem leitað var með göngustíg. Víðavangsleitin sem slík var frekar frumstæð en hvernig þeir notuðu hundana við leitina í skóginum var aðdáunarvert og þar lærðum við margt nytsamlegt. Hundarnir markera með því að gelta hjá þeim týnda og var markeringin undantekningarlaust ákveðin og góð hjá þeim. Þetta var skemmtileg dagstund sem endaði, eins og jafnan þegar við þvældumst með Tim, með tuttugu únsu Melborne steik með öllu tilheyrandi.


Gist á slökkvistöð 
Síðustu tvær næturnar sem við dvöldum í Bandaríkjunum gistum við á slökkvistöð sem var skammt frá þeim nafntogaða þjóðvegi Route 66. Slökkviliðsmennirnir á stöðinni sem gjarnan var nefnd “Tuttugu og einn” tóku okkur eins og höfðingjum. Ef við vildum fara eitthvað var okkur ekið um á sjúkrabíl ef ekkert annað farartæki var til taks. Við sátum langt frameftir nóttu og ræddum við slökkviliðsmennina (sem voru reyndar sumir sjúkraflutningamenn líka) milli þess sem þeir sinntu útköllum. Í þeim samtölum lærði maður margt auk þess sem þeir sýndu okkur margt fróðlegt. Eins og gefur að skilja þá var oft ansi annasamt á slökkvistöðinni og eitt og annað sem kom upp á. Mörg útköllin voru vegna umferðarslysa á þjóðvegi 66. Ég hafði komist að því fyrr í ferðinni í samtölum mínum við kollega mína í lögreglunni að þeir höfðu ákveðnar skoðanir varðandi öryggismál og búnað í bifreiðum. T.d. leggja þeir mikið upp úr því að fólk noti bílbelti við akstur og litu á það sem eitt af stóru málunum ef menn notuðu ekki bílbelti. Þess má geta að þeim skortir ekki það sem við köllum stóru málin hér heima, þ.e. morð,rán og sv.frv.. Þetta er hugsunarháttur sem við Íslendingar mættum taka okkur til eftirbreytni. Þeir sögðu okkur það líka þarna á slökkvistöðinni að algengustu umferðarslysin og oft þau ljótustu væru andlitsáverkarnir sem hlytust þegar menn væru ekki í belti og færu í framrúðuna. Þetta sáum við meira að segja þegar 15 ára stúlka lenti í árekstri með bróður sínum en hann var ökumaður og hún sat við hliðina á honum í farþegasæti fram í. Þau lentu í einhverju “hnubbi” eða óku saman við aðra bifreið með þeim afleiðingum að stúlkan lenti með andlitið í framrúðunni og skarst vægast sagt mjög illa í framan. Drengurinn slapp hins vegar ómeiddur enda var hann í bílbelti. Meðan við dvöldum á slökkvistöðinni þurftum við ekki að hafa áhyggjur af því að svelta frekar en hina dagana. Nú far farið að líða að þakkagjörðarhátíð þeirra Bandaríkjamanna. Það er svipuð hátíð og jólin. Seinna kvöldið okkar á “Tuttugu og einum” var eldaður kalkúnn, enginn smá kalkúnn, hann var líkari strúti. Við vorum sextán karlar þarna, flestir miklir matmenn og eftir að hafa belgt sig út var enn eftir af fuglinum.


Skrítin lestarferð 
Nú var komið að því að fara niður til Wasington. Við höfðum mælt okkur mót við Jim Lagula, hundaþjálfara hjá lögreglunni í Wasingston, en hann ætlaði að sýna okkur þeirra aðstöðu og hunda. Hann ætlaði líka að sýna okkur um í borginni og kynna okkur störf lögreglunnar. Við vorum búnir að kynna okkur lestarsamgöngurnar og ákveða ferðaplanið til Washington. Það gekk bara nokkuð vel og komumst við að lokum í neðanjarðarlest áleiðis til Washington. Það telst nú yfirleitt ekki til tíðinda að fara í lestarferð og er frekar algengur ferðamáti annarsstaðar en á Íslandi. Þessi lestarferð var þó ekki alveg tíðindalaus og eflaust eftirminnileg, þá sérstaklega fyrir Halla sem var að fara í fyrsta skipti í lest. Þegar við komum inn í lestina settumst við í sitthvora sætaröðina enda voru fáir aðrir í þeim vagni sem við völdum okkur. Síðan lagði lestin af stað en stoppaði þó reglulega á stoppustöðvum og fleiri farþegar bættust við. Ekki vorum við búnir að ferðast lengi þegar vagninn var orðinn þétt setinn, eins stóð fjöldi manns og hélt sér í þar til gerðar súlur og bönd sem héngu niður úr loftinu. Þarna sátu menn og sögðu lítið enda flestir eflaust ný vaknaðir og í þungum þönkum á leið til vinnu, þar til allt í einu að einn asískur, stútúngs karl tekur upp bók og byrjar að syngja sálm. Viðstaddir urðu þrumu lostnir en létu þó ekki bera á neinu. Karlinn hélt áfram að syngja drjúga stund og söng eina tvo sálma, síðan stöðvaði lestin á enn einni stoppustöðinni og söngvarinn kvaddi og stökk út. Ung kona sem staðið hafði framan við mig fór skyndilega að riða og vissi ég ekki fyrr en hún féll yfir mig þar sem ég sat þarna. Hún var gjörsamlega rænulaus, konu greyið, og virtist flestum viðstöddum vera nokk sama og héldu áfram að annað hvort lesa eða gera eitthvað annað. Við Halli byrjuðum að stumra yfir konunni, sem smámsaman fékk rænu og kom til sjálfs síns. Allt fór þetta nú vel og var hún okkur mikið þakklát fyrir aðstoðina.


Heimsókn til Metropolitan Police í Wasington
Þegar við komumst loks til Washington beið Jim eftir okkur við brautarstöðina á glæsilegum Ford lögreglubíl. Hann fór fyrst með okkur góðan rúnt um borgina og síðan fórum við í hundaþjálfunarstöð sem lögreglan hefur yfir að ráða. Þar fengum við að sjá ýmiskonar lögregluhunda og eins að skoða aðstöðuna. Þarna áttum við langt og skemmtilegt spjall við yfirþjálfara hundadeildarinnar, varðstjóra sem ég man ekki hvað heitir. Þeir nota aðallega þýska fjárhunda. Eins höfðu þeir nokkra Malinois hunda en sögðust þó vera farnir að hætta að nota þá þar sem þeim fannst þeir ekki nógu traustir. Þarna voru fíknefnahundar, árásarhundar, sprengjuleitarhundar og líkleitarhundar. Hundadeildin þarna sér einnig um búnað og bíla fyrir óeirðalögregluna og vildi svo skemmtilega til að þegar við vorum rétt farnir af stað með Jim í eftirlitsferð, þá var útkall á óeirðardeildina að Hvíta húsinu þar sem hópur mótmælenda var með ólæti. Jim þurfti því að fara til baka og skipta um bíl en við fórum í bíl með varðstjóranum og áður en við vissum vorum við komnir á fleygiferð niður til Washington á leiðinni í útkall að Hvíta húsinu. Allt fór þetta vel og eftir skemmtilegan dag með lögreglumönnunum, sem leystu okkur út með góðum gjöfum, fórum við og skoðuðum okkur betur um í borginni. Síðasta daginn okkar sótti Sonja okkur á slökkvistöðina og fór með okkur heim til sín og eiginmans hennar Jim. Eftir góðan göngutúr í skóginum handan við hús Sonju og Jim fórum við heim til foreldra Sonju þar sem okkur var boðið í enn eina þakkargjörðarmáltíðina. Sú máltíð dugði okkur þangað til við vorum komnir í Select í Reykjavík.


Útkoman 
Ferðin var í alla staði góð og móttökurnar frábærar og greinilegt að íslenskir björgunarsveitamenn hafa getið sér gott orð á þessum slóðum, og kom það okkur vel. Dagskráin var stíf og var sá tími sem við höfðum úr að moða gjörnýttur. Það er að okkar mati margt sem við lærðum þarna og við eigum áreiðanlega eftir að nýta okkur þá þekkingu. Ég vona að við eigum eftir að eiga gott samstarf við þessa bandarísku vini okkar og ég er ekki í vafa um að við getum lært eitt og annað af þeim og eins þeir af okkur. Ég vona einnig að við komum til með að sjá leitarhunda frá okkur sem allra fyrst í Íslensku alþjóðaveitinni. Ég sé þó ekki fyrir mér að við tileinkum okkur úttektarreglur FEMA óbreyttar. Margt er þó mjög gott við þær en annað að mínu mati afleitt. Við eigum eflaust fljótlega eftir að koma okkur upp góðum og vel frambærilegum úttektarreglum í rústaleit. Ég vil að lokum þakka Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu fyrir að styrkja annan okkar til fararinnar og eins vil ég sérstaklega þakka fyrir umdæmissjóði björgunarsveitanna á Austurlandi fyrir þeirra framlag.


Desember 2002
Steinar Gunnarsson
Neskaupstað 

    Höfundar

    Fréttaritarar / blogghöfundar eru hinir ýmsu meðlimir Leitarhunda SL

    Tímabil

    July 2018
    October 2017
    May 2017
    March 2017
    March 2016
    February 2016
    June 2014
    May 2014
    August 2012
    July 2012
    November 2011
    July 2011
    January 2005
    November 2003
    October 2003
    December 2002
    May 2002

    Flokkar

    All
    Aðalfundur
    Blogg
    Námskeið
    Útköll
    Útköll
    Vetrarnámskeið

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um Leitarhunda
    • Stjórn og hópstjórar
    • Siðareglur Leitarhunda
    • Lög Leitarhunda
    • Úttektarreglur
    • Gerast meðlimur
  • Styrkja okkur
  • Myndir
  • Fróðleikur
  • Hafa samband
  • English
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um Leitarhunda
    • Stjórn og hópstjórar
    • Siðareglur Leitarhunda
    • Lög Leitarhunda
    • Úttektarreglur
    • Gerast meðlimur
  • Styrkja okkur
  • Myndir
  • Fróðleikur
  • Hafa samband
  • English