Leitarhundar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar
Menu

Fyrirlestrarferð til Bangor - Norður Wales.

1/3/2005

 
Fyrirlestrarferð til Bangor – Norður Wales.
Steinar Gunnarsson

Fyrir um tveimur árum síðan nefndi Harold Burrows, félagi okkar, það við okkur að senda fyrirlesara á björgunarráðstefnu í Norður Wales. Það var vel tekið í það og sáu menn enga annmarka á því að fara til Wales með fyrirlestur. Síðan var ekkert meira spáð í þessu fyrr en Harold ítrekaði ósk sína löngu síðar.

Annað hvert ár halda öll björgunarsamtök á Stóra-Bretlandi veglega ráðstefnu einhversstaðar á Bretlandseyjum, ekkert ósvipaða “Björgun” hér heima bara talsvert stærri. Í þetta sinn átti ráðstefnan að fara fram í Norður Wales. Valgeir, formaður Leitarhunda SL, hafði samband við mig og spurði hvort ég gæti tekið að mér þetta verkefni, þ.e. að semja og halda fyrirlesturinn. Ég gaf mér nokkra daga til að svara og ákvað síðan, eftir að hafa lagt þetta fyrir fjölskylduna, að slá til.
Harold hafði óskað eftir fyrirlestri um þróun á aðferðarfræði okkar við þjálfun snjóflóðahunda. Nú var bara að setjast niður og semja fyrirlestur, það ætti varla að vera stórt mál. Það var síðan miklu meira verk en mér hafði órað fyrir. Fyrirlesturinn átti að vera 45 – 50 mínútur. En það var ekki eftir neinu að bíða; tíminn var knappur svo nú varð að láta hendur standa fram úr ermum. Ég lagði nótt og dag í að setja saman fyrirlestur, færa hann yfir á ensku og setja hann upp í Power Point. Síðan fékk ég góða aðstoð hjá vini mínum, Steinþóri Þórðarsyni, við að setja upp sjálft Power Point showið og færa þetta allt saman í stílinn. Eftir mikla vinnu var loksins klár fyrirlestur sem ég var bara virkilega ánægður með.
Valgeir hafði verið önnum kafinn í námi og því lítið getað fylgst með vinnunni í kringum fyrirlesturinn og vissi þar af leiðandi ekkert hvað ég var búinn að setja saman. Valli er hins vegar í eðli sínu samviskusamur og vill gera hlutina vel. Hann hafði því áhyggjur og hafði reglulega samband til að ýta við mér og sjá hvernig gengi. Ég gaf yfirleitt lítið upp við hann og ég fann að hann var farinn að hafa verulegar áhyggjur þegar nær dró ferðinni. Því ákvað ég að gera honum saklausan grikk sem ég kem síðar inn á.

Það stóð til að Hörður Magnússon, fyrrverandi skólastjóri Björgunarskólans, héldi fyrirlestur um unglingastarf íslenskra björgunarsveita á ráðstefnunni. Hörður boðaði forföll með skömmum fyrirvara og var þá ákveðið á síðustu metrunum að Ágúst Magnússon, leiðbeinandi hjá Leitarhundum hlypi í skarðið. Gústi er vel að sér varðandi unglingastarf björgunarsveitanna þar sem hann var á sínum tíma einn af upphafsmönnum unglingastarfs hjá Slysavarnarfélagi Íslands. Gústi var klár í slaginn og því var ekki eftir neinu að bíða.

Nú var komið að ferðalaginu til Wales. Ákveðið hafði verið að við færum þrír saman, ég,Valgeir og að sjálfsögðu Gústi. Gústi hafði séð um alla ferðatilhögun og gengið frá miðunum o.s.fr. Ferðin var greidd af björgunarsamtökunum sem héldu ráðstefnuna. Við lögðum af stað áttunda september frá Keflavík, eldsnemma um morguninn. Ég hafði verið að vinna ansi mikið dagana þarna á undan og var því sára lítið sofinn þegar við lögðum í hann. Ég ætlaði þess vegna að nota tækifærið og sofa vel á ferðalaginu og sá fyrir mér notalega flugferð og svo lestarferð í framhaldi þar sem ég gæti sofið og náð langþráðri hvíld. Það er skemmst frá því að segja að ekki var sofið mikið í flugvélinni. Við sátum saman við Gústi og við hliðina á honum sat ung kona. Þessi kona bar með sér að vera af miðausturlenskum uppruna. Gústi hefur eins og allir vita sem þekkja hann ákveðnar skoðanir í flestu og er ekkert feiminn við að viðra þær. Því var ekkert öðru vísi farið þarna. Gústi þurfti nauðsynlega að nota þetta einstaka tækifæri til að viðra skoðanir sínar um íslam, araba og sitthvað fleira við konuna. Þetta byrjaði allt með skemmtilegu spalli sem síðan þróaðist eins og við var að búast. Þá ákvað ég að loka augunum og gera allt til þess að reyna að sofna þar sem umræðan, sem að mestu snérist um arabaheiminn, var komin á það stig að ég var engan veginn upplagður í að fylgjast með henni lengur.
Eftir u.þ.b. þriggja klukkustunda flug lentum við heilir á höldnu í London. Þá var strax farið i að finna réttu lestina. Það gekk bærilega og eftir að hafa skipt nokkrum sinnum um lest vorum við loksins á leið til Bangor í Norður Wales. Framundan var 4ra tíma ferð. Allar vonir mínar um að geta hvílst á ferðalaginu voru brostnar. Lestarvagninum sem við vorum í hafði verið lagt fyrir mörgum árum en síðan tekinn aftur í notkun til bráðabyrgða þar sem verið var að yfirfara nýrri lestarvagnana. Þetta var varla mönnum bjóðandi, vagninn hefði ekki fengið leyfi til fjárflutninga hér heima amk. Það var um 20 stiga hiti úti og eitthvað talsvert meiri inni og engin loftræsting í vagninum. Við Valgeir sátum saman en á móti okkur sátu Gústi og miðaldra náungi af miðausturlenskum uppruna, að sjálfsögðu. Það fór ekki á milli mála í hvað stefndi. Við Valli urðum fljótlega rænulausir vegna hita og loftleysis. Gústi hins vegar er með innbyggt kerfi eins og eyðimerkurdýr og hafði hitinn og loftleysið engin áhrif á hann. Hann náði því að halda sessunauti sínum á snakki í tvo klukkutíma eða þangað til hann fór úr lestinni. Þar kom Gústi skoðunum sínum um íslam og arabaheiminn á framfæri og virtist engu að síður fara nokkuð vel á með þeim sessunautunum. Eftir að sá austurlenski yfirgaf lestina kom bara annar í staðinn og var Gústi ekki í vandræðum með að halda honum við efnið. Ekki veit ég hvað sá náungi starfaði en ég þykist muna að þeir félgar ræddu m.a. um kjarnorkuver, kindur og að sjálfsögðu íslam.
Þegar við loksins komum til Bangor voru batteríin hjá mér nánast búin. Á brautarstöðinni beið John Bell, góðvinur okkar, eftir okkur. Ég bara gat ekki beðið eftir því að komast á “hótelið” til að leggja mig. John hélt síðan með okkur á gististaðinn sem við áttum að vera á fyrstu nóttina. John sagði að við værum ekki bókaðir á ráðstefnu hótelið fyrr en næsta dag en fyrstu nóttina myndum við gista á Gistiheimili Jesse James. Jæja hvað um það, þegar við rendum upp að gistiheimilinu hélt ég að verið væri að hrekkja mig eitthvað, því þeir Valli og Gústi glottu hroðalega. Gistiheimili Jesse James var eins og gamalt fjárhús eða kökuhúsið í Hans og Grétu; niðurnýddur gamall kofi sem engan veginn leit út fyrir að vera mannabústaður. Okkur var vísað til herbergis. Við vorum fjórir saman í litlu herbergi með tveimur kojum. Í kojunum voru svefnpokar frá 1960 og ofan á þeim eitthvað sem líktist líkklæðum en þau áttum við að nota til að skríða í áður en við færum ofan í svefnpokana. Við höfðagaflinn á minni koju var svo sturtuklefi fyrir okkur félagana. Ég var orðinn allt of þreyttur til að hreyfa við mótmælum, ég varð bara að komast í svefn og ákvað að láta mig bara hafa þetta.
Ákveðið var að borða áður en við færum að sofa og var stefnan sett á virðulegan veitingastað í bænum. Eftir snögga sturtu rölti ég mér út í bakgarð gistiheimilisins þar sem ég heyrði kunnuglega rödd í hróka samræðum við einhverja fleiri. Þegar ég síðan nálgaðist raddirnar sá ég hvar Gústi var að ræða við tvær finnskar konur og eiganda gistiheimilisins, sjálfan Jesse James. Jesse og þær finnsku voru orðin frekar æst og pirruð en Gústi lét sig hvergi. Ég spurði hvað gengi eiginlega á og fékk ég þau svör að þau létu ekkert segja sér svona vitleysu. Ég spurði hvað hvað málið væri og fékk þau svör að þessi maður (þau bentu á Gústa sem stóð glottandi upp við hlaðinn steinvegg) héldi því fram að Ísland væri stærsti útflytjandi banana í Evrópu. Ég leit á Gústa og klóraði mér síðan í hausnum og ákvað að svara þessu ekki né setja mig ekki frekar inn í þessar umræður. Síðan fórum við út að borða ásamt John og finnsku konunum sem reyndust vera leitarhundaþjálfarar frá Finnlandi. Gústi sagði mér síðar að þau hefðu bara ekki skilið brandarann. Finnsku konurnar, Minna og Mary urðu síðar góðir vinir okkar og áttum við skemmtilegar stundir með þeim sem og öðrum ráðstefnugestum. Þegar ég svo loksins skreið í kojuna þetta fyrsta kvöld í Norður Wales, hundþreyttur, var það fyrsta sem ég sá þegar ég var lagstur risastór kóngulóavefur í horni kojunnar. Ég hafði hreinlega ekki orku í að gera veður út af því og sofnaði því strax eins og lítið barn – Jesse James skildi ekki buga mig.

Bangor er háskólabær í Norður Wales. Bærinn sem er aldagamall er á stærð við Akureyri og er gríðarlega fallegt þarna. Manni fannst eins og maður væri kominn hundrað ár aftur í tímann. Þarna eru falleg grasi vaxin fjöll sem árlega laða til sín mikinn fjölda ferðamanna, útivistarfólks og náttúruunnenda. Fólkið er vinalegt og þarna mátti sjá marga kynlega kvista. Snemma næsta morgun fórum við á ráðstefnusvæðið en bækistöð ráðstefnunnar var í háskólanum í Bangor. Það voru ráðstefnusalir á þremur stöðum í bænum. Fyrirlesarar komu víða að, eins og frá Bandríkjunum, Nýja Sjálandi, Finnlandi, Bretlandi og svo við Íslendingarnir.
Fjöldi fólks var væntanlegur á ráðstefnuna hvaðanæva að úr heiminum. Okkur var nú úthlutað herbergjum í heimavist háskólans. Það var mikill munur frá gistiheimili Jesse James. Eftir að hafa komið okkur fyrir fórum við á stúfana, gerðum klárt fyrir fyrirlestrana og spjölluðum við fólk sem mætt var á ráðstefnuna. Ráðstefnan átti að standa yfir í þrjá daga og var minn fyrirlestur strax eftir setningu ráðstefnunar. Ég var með allt klárt í fartölvunni. Þegar við biðum á Keflavíkurflugvelli eftir að komast um borð í flugvélina og Valli var búinn að rella í mér í marga daga að fá að sjá fyrirlesturinn ákvað ég að láta eftir honum. Ég var sem sagt búinn að setja saman aukaútgáfu til að sýna Valla. Ég tók upp fartölvuna og opnaði fyrirlesturinn og sagði Valla að líta yfir hann. Það gerði hann síðan. Ég sat rólegur og fylgdist með andlitinu á honum meðan hann las yfir fyrirlesturinn. Smá saman byrjaði andlitið á honum að skipta litum, augun stóðu útúr hausnum á honum og hann byrjaði að reyna að segja eitthvað en stamaði bara. Málið var að ég hafði látið útgáfuna fyrir Valla byrja nokkuð vel en smá saman fór fyrirlesturinn að snúast upp í einhverja þvælu og vitleysu. Það tók því Valla eilitla stund að átta sig á að þetta væri grín en ég mun aldrei gleyma svipnum á honum þar sem heimurinn gjörsamlega hrundi eitt augnablik.

Eftir setningu ráðstefnunnar var ég klár með mitt í ráðstefnusalnum sem mér hafði verið úthlutað. Ég átti ekki von á miklum fjölda á fyrirlesturinn, aðallega þá hundaþjálfurum og einstaka sérvitringum. Það kom okkur því skemmtilega á óvart þegar ráðstefnusalurinn fylltist af fólki sem komið var til að hlýða á og urðu meira að segja einhverjir frá að hverfa. Fyrirlesturinn gekk bara ljómandi vel og var mikil umræða í kjölfar hans þar sem við félagarnir svöruðum spurningum gesta. Okkur hafði augljóslega verið borin góð sagan í Bretlandi því margir höfðu heyrt vel af því látið sem við erum búin að vera að gera í gegnum árin og var mikill áhugi fyrir okkar hugmyndum og aðferðum í þjálfunarmálum. Þess má geta að komið var að máli við okkur að halda fyrirlestur bæði í Bandaríkjunum og eins Finnlandi og er það í farvatninu á nýju ári.
Gústi var með sinn fyrirlestur síðasta dag ráðstefnunnar og var vel mætt á hann. Gústi sagði frá stofnun unglingadeildanna og eins frá starfsemi þeirra. Gústi hafði fengið með sér fyrirlestur á Power Point en þegar hann fór að skoða málið betur kom í ljós að margt þurfti að laga. Gústi lagðist því í það fyrstu dagana og setti saman fínan fyrirlestur sem tókst með ágætum og var Gústi okkur til mikils sóma. Það var eins og áður hefur komið fram, saman komið björgunarfólk víðsvegar af úr heiminum á ráðstefnunni. Þarna var m.a. enskur maður sem hafði mikinn áhuga á ungmennastarfi í tenglum við björgunarsveitir. Það er þáttur þar sem við Íslendingar stöndum mjög framarlega í og hefur því víða vakið athygli. Þarna hafði Gústi eignast aðdáendur sem voru sá enski og kona sem tilheyrði sömu björgunarsamtökum og hann. Gústi átti langt spjall við þau eitt kvöldið og fór vel á með þeim. Það spjall hélt síðan áfram hvar sem við hittum þau. Það fór síðan svo að hvert sem við fórum fylgdu þau okkur og var sá enski yfirleitt aldrei langt undan og hélt hann Gústa við efnið langtímum saman. Ég man sérstaklega eftir því þegar við félagarnir læddumst út eitt kvöldið og ætluðum að fá okkur rölt og skoða bæinn og leyfa Gústa að fá smá frí frá aðdáanda sínum. Þetta var fallegt kvöld, blankalogn og og gott veður. Við vorum sloppnir út af háskólasvæðinu og gengum niður stíg í átt að bænum. Það lá vel á okkur og við spjölluðum og gerðum að gamni okkar. Þá allt í einu heyrist kallað ofan úr brekkunni – “GÚSTI” ! Síðan kom einhver mannvera á harðahlaupum niður brekkuna í átt að okkur og á eftir kom önnur, eilítið minni. Þarna var aðdáandinn mættur ásamt vinkonu sinni. Gústi ræddi því unglingamál það sem eftir lifði kvöldsins á litlum pöbb í miðbæ Bangor.

Á ráðstefnunni var mikið af athyglisverðum fyrirlestrum. Slökkviliðsmaður frá Englandi fjallaði um þjálfun hunda til að leita af leyfum eldfimra efna á brunavettvangi. Það var athyglisverður fyrirlestur og vitnaði hann nokkrum sinnum í okkur í þeim fyrirlestri. Amerísk kona hélt einnig fyrirlestur um þjálfun líkleitarhunda. Síðan voru allskyns fyrirlestrar um margt sem viðkemur flestum hliðum björgunarstarfa. Framleiðendur ýmiskonar útivistarútbúnaðar og björgunartækja voru með kynningu á ráðstefnunni. Þar voru margar athyglisverðar nýungar, bæði í fatnaði og tækjum.

Þegar ráðstefnunni lauk og við vorum búnir að pakka saman var ekkert annað að gera en að ná næstu lest til London. Sú lestarferð gekk ágætlega og vorum við komnir til London á sunnudagskvöldi. Við fundum hótel í miðbænum þar sem við fengum herbergi á fínu verði. Þar höfðum við nú heldur betur keypt köttinn í sekknum. Herbergið var pínulítið eins og kústaskápur, búið tveimur rúmum, klósetti og sturtu. Það fór svo að við Valli sváfum í rúmunum á meðan Gústi svaf á gólfinu í hálfgerðu bæli, það lét hann ekki á sig fá þar sem hann hefur, eins og áður hefur komið fram, ótrúlega aðlögunarhæfni. Við vorum ekki að væla yfir þessu enda öllu vanir eftir “Jesse James Inn”.
Við félagarnir notuðum síðasta daginn í að skoða okkur um í London. Það var virkilega gaman. “Batman” hafði komið sér fyrir á gluggakystu í konungshöllinni og var uppi fótur og fit um alla borg af þeim sökum. Við hins vegar létum það ekki á okkur fá frekar en Jesse James eða aðra minni spámenn. Síðar sáum við í fréttum að “Batman” var einstæður faðir sem var að mótmæla meðferð breska ríkisins á einstæðum feðrum.

Ferðin gekk vel og lýstu aðstandendur ráðstefnunnar ánægju sinni með okkar hlut að henni. Við höfum í gegnum árin átt gagnlegt og ánægjulegt samstarf við NSARDA og hefur það skilað bæði okkur og þeim betri leitarhundum og meiri fagmennsku. Vonandi heldur þetta góða samstarf áfram um ókomin ár. Ég vil nota tækifærið og hvetja okkar menn í að fara á úttektarhelgar í Bretlandi og kynnast félögum okkar þar. Það hafa góðir hlutir verið að gerast hjá Leitarhundum SL og nauðsynlegt að hlúa að félögunum og eins að menn sýni frumkvæði og bíði ekki alltaf eftir því að stjórn, fræslunefnd eða leiðbeinendur rétti mönnum eitthvað nýtt og spennandi upp í hendurnar. Við erum jú einu sinni sjálboðaliðasamtök þar sem hundarnir eru okkar lífstíll.

Steinar Gunnarsson, 2005

    Höfundar

    Fréttaritarar / blogghöfundar eru hinir ýmsu meðlimir Leitarhunda SL

    Tímabil

    July 2018
    October 2017
    May 2017
    March 2017
    March 2016
    February 2016
    June 2014
    May 2014
    August 2012
    July 2012
    November 2011
    July 2011
    January 2005
    November 2003
    October 2003
    December 2002
    May 2002

    Flokkar

    All
    Aðalfundur
    Blogg
    Námskeið
    Útköll
    Útköll
    Vetrarnámskeið

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um Leitarhunda
    • Stjórn og hópstjórar
    • Siðareglur Leitarhunda
    • Lög Leitarhunda
    • Úttektarreglur
    • Gerast meðlimur
  • Styrkja okkur
  • Myndir
  • Fróðleikur
  • Hafa samband
  • English
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Um Leitarhunda
    • Stjórn og hópstjórar
    • Siðareglur Leitarhunda
    • Lög Leitarhunda
    • Úttektarreglur
    • Gerast meðlimur
  • Styrkja okkur
  • Myndir
  • Fróðleikur
  • Hafa samband
  • English